Heilsueflandi skóli
Heilsueflandi skóli er þróunarstarf á vegum landlæknisembættisins sem ætlað er að styðja bæði grunn- og leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Allir skólar í Mosfellsbæ eru þátttakendur í verkefninu, leikskólar, grunnskólar og FMOS.
Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi. Mikill samhljómur er með þróunarstarfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli mun því nýtast leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.
Heilsueflandi leikskóli mun leggja sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Gert er ráð fyrir að Heilsueflandi leikskólar setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaáætlun, og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni. Stefnan þarf að vera unnin í góðu samstarfi skólastjórnenda, kennara, annars starfsfólks, foreldra, barna og nærsamfélagsins en þannig næst bestur stuðningur við málefnið og sameiginlegur skilningur.
Reglulega þarf síðan að meta árangur stefnunnar og endurskoða í samráði við fulltrúa allra þeirra sem áttu þátt í gerð hennar.